Til baka

Aðrir sálmar

Frjósemi og niðurskurðarhyggja

Ekki liggja fyrir rannsóknir á því hvort niðurskurður útgjalda úr ríkissjóði hefur áhrif á minnkandi barneignir eða hvort að fjárhagslegir hvatar virka til aukinnar frjósemi. Greinar vikunnar fjalla um þessi þjóðfélagslegu málefni og fámennið hér í fortíð og framtíð.

deilimynd-asgeirbrynjar

Íslenskar konur eignuðust rúmlega tvö börn að meðaltali fyrir tólf árum en á aðeins einum áratug féll það meðaltal niður í rúmlega eitt og hálft, líkt og kemur fram í grein Gylfa Magnússonar um fámenna framtíð okkar í tölublaði vikunnar.

Oft er vinsælt að tala um fjárhagslega hvata, þeim var jafnvel beitt til að fá fleiri háskólanema til að velja sér kennslu sem starfsvettvang. En sú fjárhagslega byrði sem fylgir barneignum gæti hafa dregið úr þörfinni og mögulega frjóseminni, þó það þurfi að rannsaka nánar.

Barnabætur hérlendis skerðast við tekjumörk sem eru lægri en framfærsluviðmið. Sem hlutfall af þjóðarútgjöldum verja meira að segja Grikkir hærra hlutfalli en við til fjárhagslegs stuðnings barnafjölskyldna.

Húsnæðiskostnaður hérlendis er einnig svo hár að erfitt er að sjá fyrir sér hvernig ungar barnafjölskyldur eiga að geta komið sér þaki yfir höfuðið nema annað hvort foreldri sé með forstjóralaun eða ef afinn og amman eigi eina auka íbúð fyrir nýbakaða fjölskylduna.

Einar Benediktsson þjóðskáld sagði kringum aldamótin þarsíðustu að fámennið væri mesta félagsböl Íslendinga og lagði þá til innflutning á útlendu vinnuafli til að fjölga íbúum landsins. Stuttu síðar kom niðurskurðarhyggjan fyrst fram á sjónarsviðið. Fyrir hundrað árum fordæmdi svo Bjarni Jónsson frá Vogi tilraunina til að gera ríkissjóð skuldlausan og hvernig að bjarga ætti þjóðinni með niðurskurði líkt og kemur fram í aldarminningargrein hér í vikuritinu um niðurskurðarhyggjuna.

Sem þjóð stöndum við frammi fyrir margháttuðum áskorunum nú um stundir, sem draga fram ólíkar áherslur fyrir erfiðar ákvarðanatökur. Ekki aðeins um gerð varnargarða og frestun eða flýtingu á bankasölu, eða hvernig nýta eigi sameiginlega sjóði. Heldur virðist einnig full þörf á því að efla samtalið um hvernig skapa megi forsendur fyrir lífvænlegt samfélag, jafnvel fyrir eignalitlar barnafjölskyldur.

Næsta grein