Til baka

Aðrir sálmar

Kant og Keynes

Velta má því fyrir sér hvort að réttarríkið geti verið í hættu ef að fáveldi nær yfirhöndinni við löggjöfina þar sem setja á lýðræðislegar reglur samfélagsins með almannahag að leiðarljósi.

Í þessari viku eru bæði 300 ár frá fæðingu prússneska heimspekingsins Immanúels Kant frá Königsberg og 78 ára ártíð helsta hagfræðingsins heimsveldisins breska John Maynard Keynes frá Cambridge.

Báðir gætu þeir flokkast sem varðhundar mikilvægustu forsendna góðs samfélags. Svo sem hugmyndarinnar um réttarríkið (e. rule of law) sem felur í sér meira en að aðeins skuli fylgja lögum og reglum. Hugmyndin byggir á því að reglur og löggjöf verndi almannahag en ekki sérhagsmuni sem setji suma ofar öðrum.

Einhverntíman hefði það þótt saga til næsta bæjar að formaður Sjálfstæðisflokksins talaði gegn samkeppni og stæði fyrir lögleiðingu á fákeppni. Til þess að tvö eða þrjú sláturhús geti hagrætt. Það þykir orðið sjálfsagt á Alþingi að best sé að tveir eða þrír sérvaldir aðilar, sem komi jafnvel beint að hönnun á löggjöfinni, fái lögverndaða heimild til að sitja að kjötkötlunum í friði. Sýndarsamkeppnin sem verið er að festa í sessi með lögum og fyrirhuguð frekari ótímabundin úthlutun heimilda til athafnafrelsis valinna fárra í sjónum kringum landið okkar er viss nýsköpun eða háþróun á einokunarversluninni gömlu.

Hugtakið oligopoly sem þýtt hefur verið sem fákeppni virðist komið með jákvæða merkingu og vera að taka yfir sem ígildi á við samkeppni hérlendis á meðan löggjöf beggja vegna Atlantshafsins vinnur harkalega gegn því að hún geti þrifist, í anda raunverulegrar samkeppni.

Stofnanir samfélagsins þurfa að standa styrkum stoðum til að geta staðið af sér aflmikla hagsmunabaráttu sérhagsmuna hinna fáu. Sérstaklega ef að sú barátta útvalinna nær inn í starf þingnefnda og breytir frumvörpum þannig að hin háleita íslenska fákeppni öðlist lagastoð og réttarvernd. Kæmust fréttir af því út fyrir landsteinana og í aðra heima er hætt við að bæði Kant og Keynes tækju sitthvorn kollhnísinn í gröfum sínum.

Heimildir

  1. Financial Times, 20. apríl 2024, Lea Ypi: Kant and the case for peace Nánar

Næsta grein