Til baka

Aðrir sálmar

Óæskileg hliðaráhrif

Samspil þarf að vera á milli peningastefnu og stefnu opinberra fjármála sem birtist í fjármálaáætlun. Þá hafa vaxtahækkanir seðlabanka einnig ýmis óæskileg hliðaráhrif.

Í síðasta tölublaði birtist fyrri hluti greinar sem lýkur með seinni hluta í þessu tölublaði og fjallar um krónuna okkar, breyttar vísitölumælingar og eðli vaxta. Efnið tengist hinni grein blaðs vikunnar um stýrivexti hérlendis, sem voru hækkaðir fyrr, hraðar og meir en í nágrannalöndunum. Gylfi Zoega skýrir muninn og ástæður sérstöðu peningastefnu Seðlabanka Íslands og ýmis áhrif hennar. Áhrif vaxtahækkana á aukinn ójöfnuð og breytta tekjuskiptingu eru hluti hinna óæskilegu hliðaráhrifa stefnunnar. Kallar Gylfi eftir því að við stjórn efnahagsmála sé fleiri tækjum beitt en stýrivöxtum sem hafi þessi óæskilegu áhrif. Eitt þeirra tækja eru skattar.

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar birtist í vikunni, rúmum tveimur vikum eftir lögbundinn skiladag. Verður meira fjallað um hana í komandi tölublöðum. Bloomberg fréttaveitan dró samdægurs saman helstu atriðin úr áætluninni á þann veg að á Íslandi hafi verið frestað um tvö ár til að ná jafnvægi í ríkisrekstrinum en á sama tíma er því haldið fram að áhersla ríkisstjórnarinnar sé lækkun verðbólgunnar samhliða því sem hún berst við að lækka hæsta lántökukostnað allra ríkissjóða í vesturhluta Evrópu.

Í vikunni hófust vorfundir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins en þess er varla að vænta að sjóðurinn þurfi að skipta sér mikið af hérlendis enda ekki lengur mikil hætta á að íslenskir bankar valdi óskunda í öðrum löndum. Hins vegar vekur athygli að samkvæmt annarri frétt í Bloomberg á þriðjudag þá fékk bandaríkjastjórn óvenjulega harðar ákúrur fyrir stjórn efnahagsmála frá sjóðnum. Þar er ríkissjóður rekinn með ósjálfbærum halla sem kyndir mikla uppsveiflu. Sá samdráttur hagvaxtar hérlendis sem seðlabankavöxtum, eldsumbrotunum og fækkandi ferðamönnunum virðist vera að takast að ná fram mun hins vegar geta aukið á ósjálfbærni skulda sem af hallarekstrinum hér hlýst.

Heimildir

  1. Bloomberg 16. apríl 2024: Iceland Delays Return to Fiscal Surplus in New Budget Plan Nánar
  2. Bloomberg 16. apríl 2024: IMF Steps Up Its Warning to US Over Spending and Ballooning Debt Nánar

Næsta grein