Til baka

Aðrir sálmar

Opinber fjármál, skuldir og stofnanir

Tölublað vikunnar er helgað opinberum fjármálum í tilefni álits fjármálaráðs sem birtist í vikunni á framlagðri tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun til næstu fimm ára.

dsf3988_KoGVuSD
Mynd: Golli

Lög um opinber fjármál voru samþykkt um jólin 2015 og tóku gildi strax þá um áramótin. Það hafði tekið tíma, allt frá fjármálahruninu mikla 2008, að semja frumvarp laganna – með aðstoð frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Kosturinn við þann óheppilega langa vinnslutíma lagasetningarinnar var að það komu nokkrar ríkisstjórnir að verkefninu þau sjö ár sem tók að færa íslenska umgjörð opinberra fjármala nær því sem þekkist í löndunum í kringum okkur. Því má ætla að samstaða sé í flestum stjórnmálaflokkunum um miklvægi umgjarðar og grunngilda þessara laga. Þau fólu í sér mikil umskipti við fjárlagagerð og undirbúning hennar með sérstöku tilliti til stefnumörkunar og áætlanagerðar.

Þannig eiga að liggja fyrir skýrar áætlanir um margra ára stórframkvæmdir líkt og nýja spítala og þjóðarleikvanga eða samgöngukerfi. Þess vegna nær fjármálaáætlun sem lögð er fram vor hvert yfir minnst fimm ár. Það tímaskeið, sem uppfærist á hverju ári, er ekki hugsað til þess að fresta fram á eða fram yfir næsta kjörtímabil að taka á erfiðum verkefnum í rekstri, eða lauma inn loforðum sem aðrir eigi að standa við og greiða úr.

Alþjóðavæðing og áskoranir

Við lifum ógnvænlega umbrotatíma nú um stundir á minnst þremur sviðum. Það eru krísur vegna loftslagsvár, hernaðarátaka og heimsfaraldra. Afleiðingar þeirra snerta opinber fjármál allra landa. Á ráðstefnu[1] í tengslum við vorfund Alþjóða gjaldeyrissjóðsins í Washington í síðasta mánuði talaði Gordon Brown fyrrum fjármála- og forsætisráðherra Bretlands um að ljóst væri að við þyrftum nýtt burðarvirki efnahagsmála í staðin fyrir úrvinda hagfræði nýfrjálshyggunnar. Auk þess ræddi hann breytingar á skautun heimsins frá einum í marga póla og allt annarskonar alþjóðavæðingu en við höfum verið vön undanfarna áratugi.

Í umbrotaástandi verður skýrt hvert mikilvægi opinberra stofnanna er. Hvort sem er varðandi vöktun náttúruvár hjá Veðurstofunni eða Almannavarnir í heimsfaraldri. Samkeppniseftirlit er eflt á verðbólgutímum jafnvel í kapítalískustu nágrannalöndum okkar eins og Bandaríkjunum.

Fjármálaráð er lítil opinber stofnun sem varð til með lögunum um opinber fjármál. Hlutverk þess er að veita álit á fjármálaáætlunum[2] á hverju vori og fjármálastefnu hverrar nýrrar ríkisstjórnar. Fjármálaráð hafa almennt hlotið aukið mikilvægi í evrópsku samhengi, sérstaklega eftir endurskoðaða efnahagsumgjörð og breyttar fjármálareglur innan Evrópusambandsins sem samið var um í árslok.[3] Fjármálaráðin veita kjörnum fulltrúum aðhald varðandi opinberu fjármálin með ópólitískum álitsgerðum sínum og mati á stefnumörkun áætlanagerðar.

Ríkisstofnanir og rokið

Ekki er hætta á að ríkissjóðir fari á hausinn vegna útgjalda. En stöðug útgjaldaaukning, jafnvel þó dragi úr henni, getur dregið úr trúverðugleika á fjármálamarkaði. Þá getur ákvörðunartaka og samningar um lántökur ríkissjóðs úr ÍL-sjóði á dögum farsóttarinnar orkað tvímælis. Þó vel geti hafa verið snjöll lausn, á þeim tíma, að fá lán úr þeim vandræðasjóði þar sem dýr fjármögnun bar lága ávöxtun. Ljóst er að við þessa lánsfjáröflun ríkissjóðs hefur hlutfall verðtryggðra lána aukist. Hér gæti og truflað trúverðugleikann frumvarp sem liggur fyrir Alþingi um slitameðferð opinberra stofnana – sem augljóslega er ætlað að ná til ÍL-sjóðs og augljóslega ekki til Bankasýslunnar, sem þó hefur verið lýst yfir slitum á opinberlega fyrir rúmum tveimur árum.

Opinberar stofnanir eru mikilvægar og sjálfstæði þeirra nær víðar en til seðlabanka og hagstofa. Lánasýslur hins opinbera eru oft sjálfstæðar stofnanir en ekki útvistunarverkefni fjármálaráðuneytis til seðlabanka. Mikilvægi upplýsinga helstu atvinnuvega er ekki síður grundvallaratriði fyrir heilbrigða ákvarðanatöku. Hérlendis skipta þar miklu máli til dæmis Hafrannsóknarstofnun, Orkustofnun og Ferðamálastofa.

Þegar að fulltrúar frá opinberri stofnun eins og Umhverfisstofnun segja ítrekað í fjölmiðlum að mengun sé vegna logns en ekki hins raunverulega upprunalega skaðvalds þá erum við augljóslega á villigötum og þeir geta enn síður vísað ábyrgðinni á Veðurstofuna. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um sameiningu Orkustofnunar við aðra hvora þeirra fyrrnefndu, eða báðar. Ein birtingarmynd mengunar hérlendis er að bæði ungum börnum og öldruðum er ráðlagt frá því að vera úti við í logni, þegar ekki er nægjanlegt rok til að feykja burt mengun af skaðlegum samgönguvenjum. Þess í stað mætti mögulega nýta gamlar aðferðir frá París og Aþenu á síðustu öld þegar að mengun fór þar yfir viðmiðunarmörk og öðrum hverjum bíl var bannað að aka inn í borgina annan hvern dag vikunnar – út frá jöfnum og sléttum tölustaf aftast í skráningarnúmeri. Síðan væri líka hægt að nútímavæðast og draga úr mengun og leyfa ungum sem öldnum að njóta þess að vera úti í logni. Þá myndu opinberar losunartölur okkar í alþjóðasamhengi fara að halla niður á við en ekki halda áfram að vaxa, líkt og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur gagnrýnt varðandi loftslagsmarkmið okkar.

Tilvísanir

  1. Peterson Institute for International Economics (PIIE) IMF Conference on Rethinking economic policy: Steering structural change, 16. apríl 2024: https://youtu.be/b9_XubIJJl4

  2. Álitsgerð fjármálaráðs um fjármálaáætlun 2025-2029 birt 30. apríl 2024. https://www.althingi.is/altext/erindi/154/154-2169.pdf

  3. Vísbending 2. tbl. 42. árg. 12. jan. 2024: Endurskoðuð umgjörð opinberra fjármála. https://visbending.is/greinar/endurskodud-umgjord-opinberra-fjarmala/

Næsta grein