Til baka

Aðrir sálmar

Skipulag og viðbragð

Greinar vikunnar fjalla um húsnæði og íbúa, tvö samtengd málefni þar sem bæði þarf að huga að skipulagi og viðbragði. Reddingar eru stundum nauðsynlegar en ekki alltaf besta leiðin til uppbygging en langtíma fjárfestingar, s.s. lífeyrissjóða, líklegri til árangurs.

Erum við glöð eða svekkt? Yfir því að íslenskt samfélag þyki svo gott samfélag að hingað vilji fólk flytjast búferlum til að lifa og starfa. Erum við hrædd? Yfir öllu því sem að er að breytast; vegna eldsumbrota, loftslagsvár, samfélagsmiðla, hernaðarátaka, flutningskostnaðarhækkana, stýrivaxtaákvarðana, atvinnumöguleika eða annarrar þróunar í efnahagslegu og samfélagslegu umhverfi okkar.

Íslendingar eru lélegir í fyrirhyggju og skipulagi en góðir í viðbragði og reddingum samkvæmt því sem kom fram í forsíðugrein síðasta tölublaðs, þar sem farið var yfir möguleika og árangur af starfi rannsóknarnefnda.

Íslendingum er meira umhugað um umhverfismál heldur en hagvöxt, kemur fram í grein Gylfa Zoega hér í tölublaði vikunnar. Að minnsta kosti samkvæmt svörum Íslendinga við erlendum spurningakönnunum. Rauntölurnar í alþjóðlegum samanburði sýna þó að bæði hagvöxtur og aukning koltvísýringsútblásturs er meiri hér en í nágrannalöndunum. Þetta misræmi þarf að rannsaka.

Vilji Íslendinga til þess að vista ungar sem aldnar manneskjur á stofnunum er meiri en meðal íbúa samanburðarlanda Gylfa í hinni alþjóðlegu viðhorfakönnun sem grein hans byggir á. Hinsvegar virðist okkur ekki ganga vel að byggja nægilega mörg nýtanleg rými á hjúkrunarheimilum og leikskólum. Okkur virðist heldur ekki ganga vel að byggja nægilegt húsrými til heimilishalds. Íbúðaskortur er merkilega viðvarandi fyrirbæri í landi þar sem álagning og hagnaður af þess háttar byggingum er talsvert hærri en í nágrannalöndunum, sem þarf þó að rannsaka betur.

Nú stendur fyrir dyrum að bæta á Alþingi úr möguleikum lífeyrissjóða hérlendis að taka þátt í uppbyggingu fleirri íbúða og ávaxta fé með útleigu húsnæðis, sem telst eðlilegt í nágrannalöndum, líkt og kemur fram í grein Ólafs Margeirssonar fasteignahagfræðings hér í blaðinu.

Heimildir

  1. Samkvæmt niðurstöðum á samráðsgátt átti að leggja fram frumvarpsdrög 7. mars 2024 Nánar

Næsta grein