Til baka

Aðrir sálmar

Viss efnahagsstjórn

Hér er fjallað um stjórn efnahagsmála og efnahagsreikninga seðlabanka en við sögu koma Jóhannes Nordal, John Kenneth Galbraith og John Maynard Keynes.

hib-idnrikiokkardaga
Lærdómsrit Hins íslenska bókmennafélags frá 1970 Iðnríki okkar daga

Gamall kennari sagði eitt sinn frá því hvernig honum hafi verið kennt í menntaskóla að lesa og greina efnahagsreikninga seðlabanka. Fjölmiðlar birtu þá vikulega töflur yfir breytingar á samsetningu þeirra, vegna áhrifa á lífskjör og hegðun á hefðbundum markaði. Þetta var í öðru landi og fyrir löngu síðan, nú er öldin önnur.

Fáir hafa ennþá áhuga á samsetningu efnahagsreikninga. Þó kom fram á ársfundi Seðlabanka Íslands í síðustu viku í ræðu Gylfa Magnússonar formanns bankaráðs að tap af rekstri hafi verið 13 milljarðar vegna neikvæðs vaxtajafnaðar og gengishækkunar krónunnar. Eignir bankans í árslok lækkuðu að verðgildi um 48 milljarða króna frá ársbyrjun. Núverandi seðlabankastjóri fjallaði mikið um áttunda áratug síðustu aldar í ræðu sinni á fundinum. Því er tilvalið að rifja hér upp skrif þáverandi seðlabankastjóra.

Jóhannes Nordal skrifaði í forspjalli að þýðingu bókarinnar Iðnríki okkar daga eftir John Kenneth Galbraith árið 1970: „Miklu hættulegra viðnám gegn nýjum hugmyndum skapast, þegar ákveðnar kenningar um eðli raunveruleikans öðlast átrúnað eða helgi, til dæmis sem hluti af heimsmynd trúarbragða eða í hugmyndakerfum þjóðfélaga.“

Þar þýddi Jóhannes jafnframt fallega fræga tilvitnun í John Maynard Keynes: „Hugmyndir hagfræðinga og stjórnmálaheimspekinga eru áhrifameiri en menn almennt gera sér grein fyrir, bæði þegar þeir hafa rétt fyrir sér og rangt. Heimurinn stjórnast raunverulega af fáu öðru. Athafnamenn, sem álíta sig ósnortna af öllum fræðilegum áhrifum, eru venjulega þrælar einhvers afdankaðs hagfræðings. Og brjálæðingar í valdastólum, sem þykjast heyra raddir spámanna, eru raunverulega aðeins í hugarórum sínum að enduróma kenningar settar fram af einhverjum skólaskriffinni nokkrum árum áður.“

Greinar vikunnar fjalla báðar um seðlabankann, gjaldmiðilinn og verðbólguvandann okkar, hvor á sinn hátt. Vísitölumælingar og vaxtaákvarðanir verða væntanlega áfram til umræðu hér í vikuritinu.

Næsta grein