Eitt af meginmarkmiðum nýrrar ríkisstjórnar er að stöðva hallarekstur ríkissjóðs og draga úr skuldum. Merki þessa má glöggt sjá í nýrri fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Hversu vel til tekst mun ráðast af mörgu – bæði hvernig tekst að auka tekjur ríkisins, en ekki síður hversu vel tekst að hemja vöxt útgjalda. Það síðarnefnda kann að reynast sársaukafullt. Þá geta ytri aðstæður kallað á breytta forgangsröðun í ríkisútgjöldum og haft áhrif á bæði tekjur og gjöld. Um árangurinn í þessum efnum skal hér ósagt látið.
Þess í stað er þessum greinarstúf ætlað að beina sjónum að tveimur grundvallarþáttum sem munu skipta sköpum fyrir skuldaþróun ríkissjóðs á komandi árum – vöxtum og hagvexti. Það er mat – í það minnsta von – greinarhöfundar að slík einföld greining geti orðið innlegg í mikilvæga umræðu um ríkisfjármál sem nú stendur yfir.
Fyrir þá sem vilja fá meginatriðið án allra málalenginga er punkturinn þessi: Verði raunvextir hærri en hagvöxtur á næstu árum, eins og spár benda til að geti orðið raunin, má ætla að draga þurfi enn frekar úr ríkisútgjöldum en áætlanir eru um, eigi skuldir ríkissjóðs að lækka í samræmi við markmið nýrrar fjármálastefnu.
Tvær jöfnur um jöfnuð á ríkissjóði
Í því skyni að skýra þennan punkt vil ég leiða lesendur í gegnum tvær einfaldar jöfnur. Hætta er á að sumir falli frá lestri strax þegar hér er komið við sögu. Hins vegar er lesendum frjálst, og flestum að meinalausu, að hoppa yfir jöfnurnar kjósi þeir svo. Í kjölfarið fylgja töluleg dæmi sem byggja á …