Til baka

Aðrir sálmar

Brjálæðislegar hugmyndir

Alþjóðlegu vorfundirnir í Washington og hugmyndir heimamanna þar á bæ

Nú í vikunni standa yfir vorfundirnir í Washington þar sem embættismenn og seðlabankastjórar hittast með fjármálaráðherrum og ráðuneytisfólki frá helstu efnahagsveldum heimsins (G20) auk aðildarlanda Alþjóðabankans (World Bank) og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), starfsfólki þeirra og gestum.

Forsetinn þar í höfuðborginni hefur þegar dregið Bandaríkin út úr Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO) og virðist vera að draga mjög úr þátttöku þeirra í Norður Atlantshafsbandalaginu (NATO). Afleiðingar þess á varnarmálastefnu Íslands eru til umfjöllunar í forsíðugrein vikunnar.

Hinn óáreiðanlegi forseti gæti allt eins tilkynnt um helgina að hann ætli að draga Bandaríkin úr IMF eða öðrum grunnstofnunum hins alþjóðlega fjármálakerfisins, sem urðu til á grunni Bretton Woods samkomulagsins fyrir átta áratugum. Hann hefur nú þegar hækkað meðaltal tolla landsins úr 3% í 25% sem er ríflega áttföldun. IMF hefur reiknað út, miðað við stöðuna þegar að efnahagsútlitsskýrsla sjóðsins var frágengin um miðjan mánuðinn að hagvöxtur í heiminum á næsta ári dragist saman um einn tíunda, úr 3,3% í 3% og um hálfa prósentu í ár, en ástæðurnar eru að hluta vegna þessara tolla og óvissunnar sem að tilskipanir forsetans hafa skapað. Hugmynd hans um að efla tekjuöflun ríkissjóðs með tollum eru mjög umdeildar eins og áður hefur verið skrifað um. Hallinn á bandaríska ríkissjóðnum er um sexfalt hærri, hlutfallslega, en sá íslenski. Hér í blaðinu birtast ábendingar fjármálaráðs um fjármálaáætlun úr áliti þeirra frá síðustu viku.

Síðan um páska hefur mikið verið rætt um í alþjóðlegum miðlum hvort forsetinn ætli að koma seðlabankastjóranum, Jerome Powell frá völdum áður en skipunartímanum lýkur. En slíku virðist hafa verið afstýrt. Líkt og hérlendis fyrir ellefu árum, sem lesa má um í sex ára úttekt Kjarnans. Þá virtist forsætisráðherra ætla að koma Má Guðmundssyni úr embætti seðlabankastjóra, án þess að nokkuð brot í starfi lægi til grundvallar.