Í síðustu viku var lögð fram fjármálastefna, í samræmi við lög um opinber fjármál (123/2015) líkt og hver ný ríkisstjórn skal gera. Síðastliðinn mánudag var síðan lögð fram fyrsta árlega fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, á hundraðasta starfsdegi hennar. Áætlunina skal leggja fram eigi síðar en 1. apríl ár hvert en hún er einnig til fimm ára líkt og stefnan og skal rúmast innan þeirra viðmiða sem þar birtast.
Þetta kerfi fyrir umgjörð opinberra fjármála gerir mögulegt að bera síðasta ár í gildandi fjármálastefnu fyrri ríkisstjórnar við fyrsta ár fjármálastefnu nýrrar ríkisstjórnar, sem fyrirliggjandi er sem þingsályktunartillaga og samþykkja þarf á næstunni. Þá er beðið beggja umsagna fjármálaráðs um fjármálastefnuna og -áætlunina innan tveggja vikna og þinglegrar meðferðar. Spennandi verður að sjá hvort það verður gert samhliða eða stefnan fyrst afgreidd og áætlunin síðan. Á meðan við bíðum er hægt að lesa rúmlega þriggja ára gamla álitsgerð fjármálaráðs um gildandi fjármálastefnu sem nær utan um fjárlög yfirstandandi árs, en rétt er að geta þess að ritstjóri sat í því fjármálaráði sem skrifaði þá álitsgerð.
Helsta nýmælið í stefnumörkun nýrrar ríkisstjórnar í opinberum fjármálum nú er sú breyting að hallarekstri skal hætt fyrr og til þess að svo megi verða er tekjuöflun styrkt. Þá er einnig fyrirhugað að bæta við nýrri fjármálareglu sem ætlað að styrkja umgjörðina, með frumvarpi, sem að stefnumörkunin miðar við að taki gildi, það er svokölluð stöðugleikaregla. Hún kemur til viðbótar afkomureglu, skuldareglu og skuldalækkunarreglu (sem gildir ef skuldirnar eru hærri en 30% af landsframleiðslu).
Í þessu samhengi er rétt að benda á grein um fjármálareglur í Vísbendingu síðasta sumar sem kynnti stöðugleikaregluna og þáverandi starfsmaður fjármálaráðuneytisins skrifaði. Nefna má fleiri Vísbendingargreinar í tengslum við þessa umfjöllun, sérstaklega grein um áratug ríkisfjármála sem birtist hér fyrir mánuði síðan eftir fyrrum ríkisskattstjóra sem einnig starfaði í fjármálaráðuneytinu. Loks má nefna að rétt áður en ritstjóri tók við því starfi hafði hann skrifað grein um sjálfbærni fjármálanna í september 2023 sem gæti verið þess virði að rifja upp, fyrir hið sögulega samhengi.
Eftir að fjármálaáætlun var kynnt á mánudag kom hún til umfjöllunar í Kastljósi kvöldsins þar sem sjá má títtnefndan ritstjóra taka þátt með fulltrúa atvinnulífsins en einnig voru stjórnmálamenn að ræða hana í Silfrinu síðar um kvöldið sem lesa mátti einnig ítarlega um á vef Ríkisútvarpsins.
Segja má í einni setningu að styrkur framlagðrar fjármálaáætlunar afhjúpi þá veikleika sem voru í þeirri efnahagsstjórn sem viðgengist hefur undanfarin ár, og nefnd er hér að ofan, það er að stöðva viðvarandi hallarekstur hins opinbera með því að bæta tekjuöflun ríkissjóðs. Þó sú tekjuöflun mæti vissulega andstöðu eins og fjallað var um í öðrum sálmum síðustu viku.
Ástæðan fyrir því að fjármálastefnur og fjármálaáætlanir eru til fimm ára er að kjörtímabil miðast við fjögur ár og mikilvægt að áætlanir nái lengra en kjörtímabilið. Þannig að samfella myndist í efnahagsstjórninni og umfjöllun hennar. Rétt er að muna að á yfirstandandi ári eru í gildi fjárlög sem fyrri ríkisstjórn lagði fram og samþykkt voru fyrir síðustu kosningar. Þau fjárlög eru í samræmi við gildandi fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar frá vorinu 2024. Þá birtum við hér í Vísbendingu grein með helstu niðurstöðum álitsgerðar fjármálaráðs um þá áætlun.
Það að hafa nýtt hagvöxt undanfarin ár til þess að viðhalda veikleikum í stjórn efnahagsmála er á ábyrgð þeirra flokka sem voru í ríkisstjórn síðustu tvö kjörtímabil. Að sjálfsögðu er góð stjórn efnahagsmála fólgin í því að vaxa út úr þeim vanda sem á dynur og skera ekki niður of harkalega eftir áföll. En það að hafa gefið eftir alltof mikla tekjuöflun án þess að afla nýrra tekna í staðin, með allri þeirri afleiddu veikingu tekjuhliðar opinberra fjármála sem af hefur hlotist, er arfleifð þeirrar ríkisstjórnar og verður að teljast ein helsta ástæða þess hallareksturs sem kostar okkur öll mjög háar vaxtagreiðslur ríkissjóðs.
Núverandi ástand heimsmála með efnahagslegum afleiðingar óróans þaðan er til umfjöllunar í öðrum sálmum vikunnar. Sú alþjóðlega óvissa og áhætta mun auka enn frekar á þau efnahagslegu vandkvæði sem veikleikar tekjuhliðar ríkissjóðs hefa borið með sér. Vonandi næst að bæta þar úr í tæka tíð.