Frá árinu 2013, þegar landsframleiðsla Kína fór fram úr landsframleiðslu Bandaríkjanna, hefur kínverska hagkerfið verið stærst í heimi á þennan kvarða. Við bætist að frá árinu 1960 hefur Kína aukið 45 árum við meðalævi íbúanna, sem er ótrúlegur árangur, borið saman við 6½ ár sem bættust við meðalævi Bandaríkjamanna á sama tíma. Meðalævi Kínverja var komin upp í 78 ár 2022 borið saman við 76 ár í Bandaríkjunum.
Til að mála strigann með breiðari pensli skulum við spyrja: Hvernig er staðan á heildina litið í G7- hópnum undir forystu Bandaríkjanna borið saman við BRICS-löndin undir forystu Kína í efnahagslegu og öðru tilliti?
Tekjur og vöxtur
Með alls 3,2 milljarða íbúa – og trúlega bráðum fleiri – eru BRICS-löndin (Brasilía, Kína, Indland, Rússland og Suður-Afríka) fjórum sinnum mannfleiri en G7-löndin (Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan, Kanada og Þýzkaland). Kaupmáttur þjóðartekna í BRICS-ríkjunum er þó aðeins örlitlu meiri en í G7-hópnum, eða 42,4 billjónir alþjóðlegra Bandaríkjadala á núverandi verðlagi borið saman við 42,1 billjón; munurinn nemur innan við 1%. Af þessu leiðir að kaupmáttur þjóðartekna á mann í BRICS-ríkjunum nemur að meðaltali um fjórðungi af meðaltali G7-hópsins. Lægstu þjóðartekjur á mann meðal G7-landanna (Japan) eru meira en þriðjungi hærri en hæsta talan í BRICS-hópnum (Rússland).


Vöxtur landsframleiðslu á mann í alþjóðlegum Bandaríkjadölum á verðlagi ársins 2017 var 1,5% á ári að meðaltali árin 1990-2022 í G7-hópnum borið saman við 4,5% í BRICS-hópnum, þar sem Kína og Indland skera sig úr með óvenjumiklum meðalvexti, 12,3% og 6,4% á ári (mynd 1). Meðalársvöxtur landsframleiðslu á mann í Brasilíu, Rússlandi og Suður-Afríku var 1,3%, nokkru undir meðaltali G7-landanna. Árlegur meðalvöxtur landsframleiðslu á mann á Íslandi 1995-2022 var til samanburðar 2,9%, langt yfir meðaltali G7-landanna.
En tekjur skipta ekki öllu máli. Hagtölur um landsframleiðslu og þjóðartekjur eru ýmsum vandkvæðum undirorpnar og því er þörf á víðara sjónarhorni í samanburði ólíkra landa til að taka ýmsa pólitíska og félagslega þætti með í reikninginn. Það dugir ekki að einblína á þjóðhagsreikninga þar eð þeir ná ekki yfir allar tekjur, til dæmis ekki tekjur sem aflað er óbeint utan markaða svo sem innan heimilis og ekki heldur faldar tekjur sem hvergi koma fram (Zucman 2015 og Jóhannes Hraunfjörð Karlsson og Þórólfur Matthíasson 2016). Við bætist tilhneiging einræðisstjórna til að falsa hagtölur (Þorvaldur Gylfason 2022).
Heilbrigði og menntun
Byrjum á lýðheilsu. Að undanskildum samanburðinum að framan á Kína og Bandaríkjunum er meðalævin (þ.e. meðalævilíkur við fæðingu) enn lengri í hverju G7-landanna en í BRICS-hópnum (mynd 2). Í G7-hópnum er meðalævin 81 ár (bláar súlur) borið saman við 70 ár í BRICS-löndunum (rauðar súlur). Trúlega mun þetta bil minnka enn frekar á næstu árum með batnandi lýðheilsu í báðum hópum líkt og í heiminum öllum. Meðalævin var 83 ár á Íslandi 2021.



Í menntamálum gnæfir Kína yfir öll hin löndin sé miðað við árangur 15 ára nemenda í PISA-prófum OECD í lestri, stærðfræði og náttúrufræði (mynd 3). Rússland, sem hlýtur sömu einkunn og Ísland (ekki sýnt), stendur á þennan kvarða að baki af G7-hópnum, að Ítalíu undanskilinni. Indland og Suður-Afríka taka ekki lengur þátt í PISA-prófunum þar sem bæði löndin fengu lága einkunn áður.
Mannfélagsþróunarvísitala Sameinuðu þjóðanna (e. Human Development Index) steypir þessum þáttum saman til að gera grein fyrir heilsu og menntun samhliða tekjum. Þessi þróunarvísitala sýnir mun minna bil milli G7-landanna og BRICS-landanna en þröngur samanburður á tekjum á mann eingöngu. Þróunarvísitalan nær frá 0 upp í 1 og er nú að meðaltali 0,9 í G7-hópnum og 0,7 í BRICS-hópnum. Þetta er miklu minni munur hlutfallslega en fyrr nefndur fjórfaldur munur á kaupmætti þjóðartekna á mann. Íslenzka vísitalan er 0,96 og hin þriðja hæsta í hópi 186 landa. Sviss og Noregur skipa efstu tvö sæti listans.
Lýðræði og frelsi
Lýðræðisstofnun Háskólans í Gautaborg birtir árlegar skýrslur um stöðu lýðræðis í heiminum. Staðan er metin eftir fjölmörgum eigindum lýðræðis í 202 löndum allar götur frá 1789 til 2022 til að búa til samsetta vísitölu frá 0 upp í 1. Ekki kemur á óvart að Danmörk , Noregur og Svíþjóð skipa þrjú efstu sæti listans fyrir 2022 þar sem Finnland skipar 10. sæti, Bandaríkin 23. sæti og Ísland 29. sæti, aftar en Eistland, Lettland og Litháen. Stjórnmálafræðingarnir í Gautaborg skipta lýðræði í fjóra flokka: Opin lýðræðisríki (e. liberal democracies), lokuð lýðræðisríki (electoral democracies), opin einræðisríki (electoral autocracies) og lokuð einræðisríki (closed autocracies).
Ekkert BRICS-landanna kemst nálægt G7-löndunum á þennan lýðræðiskvarða (mynd 4). Lýðræðiseinkunn Indlands hefur hrunið úr 0,5 fyrir 2016 í 0,3 fyrir 2022. Rússland og Kína skrapa botninn á listanum. Meðaltal lýðræðisvísitölunnar fyrir G7-löndin er 0,77 borið saman við 0,31 fyrir BRICS-löndin.
Lýðræðiseinkunn Freedom House á kvarðanum frá 0 upp í 100 er 92 fyrir G7-löndin að meðaltali og 49 fyrir BRICS-löndin (mynd 5).
Þetta skiptir máli vegna þess að lýðræði, frelsi og virðing fyrir mannréttindum eru algild og sígild og þá um leið hafin yfir ágreining samkvæmt alþjóðlegum sáttmálum eins og Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948. Við bætast niðurstöður rannsókna sem benda til að lýðræði og hagvöxtur haldist jafnan í hendur (Acemoglu o.fl. 2019 og Þorvaldur Gylfason 2019).
Gegnsæi og jöfnuður
Transparency International birtir árlegar skýrslur um gegnsæi í heiminum. Gegnsæi skiptir máli þar eð það er andhverfa spillingar: Meira gegnsæi vitnar um minni spillingu. Transparency skilgreinir spillingu sem misnotkun valds í eiginhagsmunaskyni. Gegnsæisvísitalan nær frá 0 (stæk spilling) upp í 100 (engin spilling). Meðalvísitala G7-landanna 2022 var 71 á móti 39 í BRICS-löndunum. Enn sjáum við að sérhvert G7-land skorar hærra – þ.e. telst vera minna spillt – en öll BRICS-löndin (mynd 6). Aðrar heimildir, til dæmis Gallup, vitna um hliðstæða niðurstöðu. Samkvæmt skýrslu Gallups (2013) sagðist meiri hluti aðspurðra í 108 af 129 löndum sem könnuð voru 2012 telja spillingu vera útbreidda í valdstjórn þeirra. Nánar tiltekið sögðust 61% svarenda í G7-löndum telja spillingu vera útbreidda í valdstjórninni heima fyrir borið saman við 76% í BRICS-löndunum (Kína var ekki talið með) og 67% á Íslandi. Gegnsæisvísitalan á mynd 6 var 74 á Íslandi 2022 og 90 í Danmörku (ekki sýnt).



Skipting eigna og tekna skiptir einnig máli. Einn mælikvarði á eignaskiptingu er hlutdeild ríkasta hundraðshluta þjóðarinnar í heildarauðnum, sem haldið er til haga í World Inequality Report (2022). Þar kemur fram að meðalhlutdeild ríkasta hundraðshluta íbúa hvers lands í heildarauði nemur 26% að meðaltali í G7-hópnum á móti 43% í BRICS-hópnum; það er mikill munur (mynd 7). Sambærileg tala fyrir Ísland er ekki til. Misskipting auðs og tekna haldast gjarnan í hendur. Gini-vísitalan sem lýsir ójöfnuði í tekjuskiptingu, er 39 í BRICS-hópnum að meðaltali og mun hærri en í G7-hópnum, þar sem meðaltal Gini-stuðlanna er 33,5 – og 26,1 á Íslandi 2017 (ekki sýnt).
Lög og réttur
World Justice Project tekur saman réttarfarsvísitölu frá 0 upp í 1 og styðst þar við 44 vísbendingar í átta flokkum: Valdmörk og mótvægi við ríkisvald, gegnsæi í andstöðumerkingu við spillingu, opin stjórnsýsla, virðing fyrir mannréttindum, röð og regla í réttarfari, framfylgd laga og reglna, réttindi borgaranna og réttlæti refsidóma. Réttarfarsvísitalan nær nú yfir 140 lönd, en þó ekki Kína og Rússland. Mynd 8 sýnir réttarfarseinkunnir G7-landanna og BRICS-landanna. Meðaleinkunn G7-hópsins er 0,76 borið saman við 0,5 fyrir þau þrjú BRICS-lönd sem vísitalan nær yfir. Íslandi hefur ekki enn verið bætt í úrtakið.
Í stuttu máli sýna stjórnmála- og félagsvísarnir á myndum 4-8 að samanburður á tekjum einn og sér nægir ekki til að draga upp breiða mynd af ólíkum löndum hlið við hlið. Meira þarf til. Við höfum séð að G7-ríkin veita fólki sínu ekki aðeins hærri tekjur á mann heldur einnig lengri ævir, betri menntun, meira lýðræði og frelsi, minni spillingu, meira jafnræði og öflugra réttarríki.