Inngrip Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkað fyrr í mánuðinum var ekki stórkostlegt þótt það hafi ratað í fréttir. En þó fréttnæmt. Nafngengi krónunnar tók stökk samhliða því, sem var væntanlega ætlunin, eftir veikingarfasann sem hún er búin að vera í gangi í haust.
Líklegast er að ætlun Seðlabankans sé að reyna að draga úr innfluttum verðbólguþrýstingi og kannski tekst það, þótt efast megi um heildaráhrif aðgerðanna.

Þetta er þó ólíklegt að skipta máli í stóra samhenginu. Fyrir utan að raungengi krónunnar er líklega að verða nokkuð sterkt vegna of mikillar verðbólgu svo nafngengi krónunnar ætti bráðum að veikjast hægt og rólega. Til langs tíma hefur það verið húsnæðisliðurinn sem hefur skipt langmestu máli þegar kemur að langtímaverðbólgu á Íslandi. Innfluttar vörur, m.t.t. gengis krónunnar eru þar hvað veigaminnstar.

Svo ef Seðlabankinn vill koma verðbólgu niður, til langs tíma, á hann óhikað að beina lána- og fjárfestingarflæði fjármálakerfisins í átt að fjármögnun á auknum íbúðabyggingum. Það ýtir undir aukið byggingarmagn og dregur úr skorti á íbúðum. Verðlagsþrýstingur sem verður til vegna skorts á húsnæði minnkar í kjölfarið.

Það er ágætt að hafa í huga að slík lánaleiðsögn hefur verið notuð af mörgum þjóðum í gegnum árin þegar þær vilja ýta undir uppbyggingu og framleiðslu á t.d. iðnaðarvörum (s.s. Japan, Suður Kórea, Tævan, Frakkland, Bandaríkin) eða húsaskjóli (s.s. Japan, Bandaríkin).
Satt best að segja finnst mér slík langtímaáætlun, sem ýtir undir aukið byggingarmagn á íbúðum, líklegri til árangurs, a.m.k. til langs tíma, heldur en inngrip á gjaldeyrismarkaði og of háir stýrivextir.