
Enginn deilir um að efnahags- og atvinnumál séu hagsmunamál okkar allra. Það er erfiðara að vera sammála um að hægur hagrænn vöxtur sé góður valkostur fyrir samfélagið. Þá eru skiptar skoðanir um hvaða atvinnugreinar uppfylli kröfur um gott jafnvægi í samfélaginu, styðji við bætt lífskjör, öflugt velferðarkerfi og gæti meðalhófs í auðlindanýtingu. Um þessar mundir er það ferðaþjónusta sem atvinnugrein sem er áberandi í samfélagsumræðunni.
Vöxtur ferðaþjónustunnar kom á heppilegum tíma fyrir íslenskt samfélag. Ýmsar ástæður liggja þar að baki en af innlendum toga skiptir efnahagslægð í kjölfar fjármálahrunsins í október 2008 mestu, hún skapaði svigrúm fyrir nýjan vöxt. Atvinnuleysi var mikið, halli var á viðskiptum við útlönd, gengið var sögulega lágt með tilheyrandi verðbólgu og háum vöxtum og þá ríkti almennt ójafnvægi á atvinnu- og húsnæðismarkaði. Innlendir innviðir voru vannýttir, vegakerfið réð við fleiri bíla og vinsælir ferðamannstaðir gátu stækkað. Smám saman fyllti þó alþjóðleg eftirspurn ferðamanna eftir vöru og þjónustu, upp í ónýtta framleiðslugetu.
Þingsályktun um ferðamálastefnu og aðgerðir
Í nýlegri þingsályktun um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030 kemur víða fram þörf fyrir rannsóknir og betri gögn um ferðaþjónustu. Eitt helsta umkvörtunarefni undanfarin ár hefur verið að gögnum og upplýsingum hafi verið safnað víða, ókerfisbundið og án samráðs; auk þess hafi skort samhengi við stórar áskoranir í efnahagsmálum, innviða- og öryggismálum. Það á við um ferðaþjónustu eins og aðrar atvinnugreinar að gott aðgengi að vönduðum upplýsingum skiptir sköpum fyrir alla ákvarðanatöku.
Það er eðlilegt og mikilvægt að leggja mat á hvað einstaka atvinnugreinar leggja af mörkum til samfélagsins. Það er hlutverk og eðli þjóðhagsreikninga. Í áðurnefndri þingsályktun
Í þingsályktuninni er lögð áhersla á að birta upplýsingar um útflutt vöru- og þjónustukaup erlendra ferðamanna hér á landi á föstu verði. Mælikvarðinn er ekki algildur hagrænn mælikvarði á stöðu ferðaþjónustunnar, hann er einungis hluti af heildrænum ferðaþjónustureikningum, en miðað við vægi erlendra ferðamanna í heildarveltu greinarinnar á að vera samhengi milli útflutningstekna af kaupum erlendra ferðamanna innanlands og þýðingarmikilla stærða í rekstri fyrirtækja; tekna, kostnaðar, beinna skatta og arðsemi. Þá greiða erlendir ferðamenn virðisaukaskatt af kaupum á vöru og þjónustu, sem skilar sér í tekjum til ríkissjóðs. Eðlilegt er að þær tekjur fari í að bæta innviði og aðstöðu fyrir ferðamenn m.a. til að auka samkeppnishæfni. Á árinu 2023, má áætla að nettó virðisaukaskattur af kaupum allra erlendra ferðamanna innanlands hafi verið um 50 milljarðar kr. sem er um 13% af virðisaukaskattstekjum ársins. Um 71% voru kaup ferðamanna í einkennandi greinum ferðaþjónustu en um 29% í verslun …








