Frá Háskólanum á Akureyri: Gervigreind breytir forsendum menntunar og kallar á nýja hæfni, siðferðislega ígrundun og skýra ábyrgð þar sem mannleg dómgreind stýrir tækninni.
Nýlega fór fram umræða um hvort gervigreind gæti tekið við af sálfræðingum í framtíðinni. Slíkar vangaveltur um hvaða störf sé hægt að leysa af hólmi með tilkomu gervigreindar eru víða og því mikilvægt að staldra við og skoða hlutverk menntakerfisins og þá sérstaklega háskóla, í breyttu landslagi tækninnar.
Gervigreind geti magnað upp hlutdrægni
Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor Háskólans á Akureyri, hefur í sínu starfi sýnt í verki að háskólinn skuli svara námsþörfum nútímans. Hún segir mikilvægt að stúdentar læri að nota gervigreind á ábyrgan hátt í námi og vinnu, en jafnframt að þeir skilji þær siðferðilegu spurningar sem notkun gervigreindar hefur í för með sér.
Í stefnu háskólans til ársins 2030 er skýrt kveðið á um að nýta beri framfarir í tækni og gervigreind til þess að vera leiðandi í að skapa eftirsóknarvert umhverfi til náms og starfa.
Í nýrri heildstæðri stefnu háskólans um ábyrga notkun gervigreindar eru sett fram leiðarljós sem taka á þessum áskorunum. Þar er lögð áhersla á að við notkun gervigreindar sé hugað að velferð og mannmiðaðri nálgun, og að ábyrg notkun þýði að einstaklingurinn beri alltaf ábyrgð á eigin vinnu. Það er skýrt að skil á verkefni sem byggir á úttaki gervigreindar án sjálfstæðrar yfirferðar og ábyrgðartöku telst brot á akademískum heiðarleika.
„Gervigreindin hefur ekki siðferðiskennd, hún getur magnað upp hlutdrægni og því verða notendur að vera gagnrýnir og taka fulla ábyrgð á innihaldi og siðferðisþáttum,“ segir Áslaug.
Raunveruleikinn: Mannleg nálgun í stafrænum heimi
Magnús Smári Smárason, verkefnastjóri gervigreindar við HA, leiddi vinnuna við nýsetta stefnu háskólans. Nálgun hans byggir á raunsæi og virðingu fyrir mannlegri getu. Magnús hefur ítrekað bent á að tæknin sé verkfæri en ekki stjórnandi; hún á að magna upp hæfileika okkar en ekki deyfa þá eða skapa það sem kalla mætti „vitræna skuld“ – ástand þar sem við glötum hæfni til sjálfstæðrar hugsunar vegna ofurtrúar á tæknina.
Í innleiðingu stefnunnar er lögð áhersla á að stúdentar og starfsfólk skilji virkni tækninnar til hlítar og beiti henni með gagnrýnni hugsun og forðist um leið „ábyrgðarþoku“ – þar sem enginn veit hver ber ábyrgð á úttaki vélarinnar.
Lykillinn að farsælli innleiðingu liggur í nálguninni
Rannsóknir sýna skýran mun á „meistaralegri nálgun“, þar sem stúdentar nota gervigreind til að dýpka …








