Um þessar mundir stendur gervöll heimsbyggðin á öndinni vegna glannalegra yfirlýsinga 47. forseta Bandaríkjanna um að hann ætli að beita tollum til að leysa því sem næst öll helstu vandamál lands síns. Þeir eiga að verja heimamenn fyrir samkeppni, fá útlendinga til að kaupa bandarískar vörur og þjónustu hvort sem þeim líkar betur eða verr, loka landamærunum fyrir smygli á hvort heldur eiturlyfjum eða innflytjendum, laga hallann á ríkissjóði og raunar gott betur, fjármagna nefnilega líka ríkulegar skattalækkanir svo að það helsta sé nefnt. Þetta á allt að gera án þess að hækka innlent vöruverð, því það hefur hann lofað að lækka. Tollar eru uppáhaldsorð forsetans að hans eigin sögn og kannski ekki að furða ef þeir geta leyst öll þessi vandamál.
Það er hafið yfir allan skynsamlegan vafa að tollar geta ekki náð öllum þessum markmiðum. Því fer fjarri en hugsanlega getur forsetinn náð einhverju fram sem hann telur ávinning. Sá ávinningur yrði þó aldrei án verulegs kostnaðar, bæði fyrir Bandaríkjamenn og nágranna þeirra og viðskiptavini.
Hagfræði tolla
Hagfræði tolla er í grundvallaratriðum sáraeinföld, þeir hækka verð fyrir innflytjendur og lækka þau fyrir útflytjendur, þótt skipting byrðanna geti verið misjöfn eftir aðstæðum. Þá draga þeir úr viðskiptum og gera framleiðslu óhagkvæma, færa hana til landfræðilega frá þeim sem gætu sinnt henni á hagkvæmastan hátt til annarra sem gera það með hærri kostnaði.
Ef Bandaríkin koma í veg fyrir það með tollum að Mexíkó geti framleitt og flutt út varning með lægri kostnaði en hægt er í Bandaríkjunum, m.a. vegna …