Það verður ekki annað sagt en órói sé á Vesturlöndum um þessar mundir. Það er óstöðugleiki í stjórnmálum, ýmsar öfgahreyfingar til hægri og vinstri njóta vaxandi vinsælda, málefni innflytjenda eru orðin hitamál og þannig mætti lengi telja. En af hverju stafar þessi órói? Í nýlegri bók þess sem þessa grein skrifar var reynt að greina orsakir og afleiðingar. Bókin ber heitið The Great Economic Slowdown og kom út hjá Palgrave Macmillan nú í september. Meðhöfundar eru þeir Edmuns S. Phelps, nóbelsverðlaunahafi, og annar fyrrverandi nemandi hans Hian Teck Hoon, sem er prófessor í hagfræði í Singapúr.
Undirliggjandi orsök óstöðugleikans sem kemur fram á margvíslegan hátt er lækkandi vöxtur framleiðni í Bandaríkjunum og einnig á öðrum Vesturlöndum síðustu áratugina. Myndin hér að neðan sýnir vöxt heildarþáttaframleiðni í Bandaríkjunum frá byrjun sjötta áratugs síðustu aldar. (Tímaröðin hefur verið jöfnuð með H-P filter.) Takið eftir lækkandi hraða framleiðnivaxtar allt fram á tíunda áratuginn. Síðan varð tímabundin aukning samfara tilkomur internetsins á seinni helmingi áratugarins sem svo fjaraði út.
Bandaríkin leiða á flestum stigum tækni og viðskipta. En forskot þeirra í upphafi þessa tímabils gaf öðrum löndum færi á að læra af þeirra tækni og auka þannig eigin hagvöxt. Þetta skýrir að stórum hluta gullnu öld hagvaxtar á eftirstríðsáratugunum í Vestur-Evrópu og í Japan. En eftir að hagvöxtur í Bandaríkjunum minnkaði eftir 1970 þá leið ekki á löngu þar til hagvöxtur minnkaði einnig í Evrópu og í Japan. Fyrstu í Evrópu (og Kanada) um og eftir 1980 og svo í Japan eftir 1990.
