Breytingar eru oft erfiðar. Sérstaklega hugmyndafræðilegar breytingar. Skynsamt fólk vill oftast ekkert skipta um skoðun. Þess vegna eiga nýjar hagfræðilegar hugmyndir og kenningar oftast ekkert auðvelt uppdráttar. Jafnvel þó þessar hagfræðilegu hugmyndir byggist á gamalgrónum sannleika, reynslu eða þekkingu. Hafi þær lent utan meginstraumsins geta þær hugmyndir þótt stórhættulegar.
Þess vegna er í þessu tölublaði birt þýðing á tveggja ára gamalli grein úr Guardian eftir hagfræðing sem fékk yfir sig mikla gagnrýni fyrir að hafa haldið fram þeim gömlu hugmyndum að eftir heimsfaraldur væri, líkt og eftir seinna stríð, mikilvægt að halda verðhækkunum í skefjum með opinberu eftirliti.
Seinni grein blaðs vikunnar fer yfir reynslu síðustu tveggja ára með tilliti til greininga á verðbólgunni og umræðu í nokkrum greinum í Financial Times og Project Syndicate úr síðustu viku þar sem skoðað er hvort að hagnaðardrifna græðgin geti verið mikilvægur orsakaþáttur verðbólgunnar. Fyrir nokkrum vikum var einnig grein um þetta efni hér í Vísbendingu eftir Stefán Ólafsson.
Loks birtast nú á öftustu síðunni nokkur gröf með stuttri greiningu frá hagfræðingnum Ólafi Margeirssyni sem hann vinnur upp úr hagtölum frá Íslandi en hann hefur getið sér orð fyrir að koma fram með annars konar greiningar heldur en meginhópur hagfræðinga hérlendis. Þetta er liður í stefnu vikuritsins að efla gagnrýna og gagnlega greinandi umfjöllun um efnahagsmál hér.
Nú í vikunni ákvað peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að halda meginvöxtum bankans óbreyttum, í 9,25% á sjö daga bundnum innlánum viðskiptabanka í seðlabankanum, vegna óvissunar af efnahagslegum áhrifum jarðhræringa á Reykjanesi. Það gæti verið að náttúruöflunum takist betur að hægja á ferðamannastraumnum og tempra þensluna í hagkerfinu heldur en hækkanir stýrivaxta hafa hingað til náð að gera.